Í lok átjándu aldar kom upp mikill gulufaraldur í Fíladelfíu, sem þá var höfuðborg Bandaríkjanna, svo þúsundir manna létu lífið. Gula er skæður sjúkdómur sem veldur miklum uppköstum, blæðingu og lifrarskaða.

 

Nokkrum árum eftir að faraldurinn geisaði skráði ungur maður að nafni Stubbins Ffirth sig í læknisfræði við háskólann í Pennsylvaníu. Ffirth hafði fylgst með gulunni leggja samfélagið í höfuðborginnin í rúst og æ síðan hafði hann sjúkdóminn á heilanum. Lítið var vitað með vissu um gulu og skiptar skoðanir um hvað olli sjúkdómnum. Sumir trúðu því að það væri óhreint vatn og aðrir trúðu að um smitsjúkdóm væri að ræða. Ffirth var handviss um að gulan væri ekki smitandi og var reiðubúinn að leggja mikið á sig í von um að sanna það.

 

Ffirth var aðeins óbreyttur læknanemi og fann engann sem deildi eldheitum áhuga á hans á gulu og vildi taka þátt í rannsóknum hans. Svo að hann brá á það ráð að gera tilraunir á sjálfum sér. Tilraunir sem urðu æ ógeðslegri.

 

Hann byrjaði á því að hella „ferskri svartri ælu“ úr gulusjúklingi í opna skurði á handleggjum. Síðan beið hann átekta. En ekkert gerðist; Ffirth sýktist ekki af gulu.

 

Eftir hina uppörvandi niðurstöðu fyrstu tilraunarinnar gekk Ffirth enn lengra. Næst lét hann æluna leka í augun á sér og nuddaði öðrum líkamsvessum úr gulusjúklingum á líkama sinn—blóði, svita, hráka og þvagi. Hann sat meira að segja í „gubbgufubaði“ þar sem hann andaði að sér heitri ælugufu. Síðasta uppátækið olli honum víst „miklum verk í höfði“ en annars var hann við  hestaheilsu.

 

Að lokum tók hann upp á því að neyta ælunnar, first í pilluformi og loks beint úr munni sjúklingsins. Og aldrei varð hann veikur, svo að hann lét gott heita og taldi tilgátu sína sannaða. Gula var ekki smitsjúkdómur. Að launum fyrir ósköpin fékk hann doktorsgráðu í læknisfræði.

 

Það var ekki fyrr en rúmri öld síðar að tilgáta Ffirth var afsönnuð. Gula er vissulega smitsjúkdómur, en aðeins ef hann berst beint í blóðrásina. Moskítóflugur bera sjúkdóminn til manna, eins og bandarískir herlæknar sönnuðu um aldamótin 1900. Þeir notuðust líka við sjálfstilraunir og ungur læknir og hjúkrunarkona dóu eftir að hafa látið moskítóflugur bíta sig.