Árið 1900 birtist sérkennileg framtíðarsýn í landbúnaðarblaðinu Plógi. Rætt var um spár franska efnafræðingsins Marcellin Berthelot um ástand landbúnaðar árið 2000, en hann gekk svo langt að fullyrða að akuryrkja, jarðyrkja, húsdýrarækt, garðrækt og fiskiveiðar myndu ekki þekkjast að hundrað árum liðnum.

 

Það er ákaflega auðvelt fyrir Lemúrinn að vera vitur eftir á, en þrátt fyrir það stillir hann sig ekki um að flissa örlítið yfir þessari framtíðarsýn Berthelots, sem taldi að allur náttúrulegur matur myndi hreinlega víkja fyrir verksmiðjuframleiddum gerviefnamat. Á hitt skal þó benda að þessi franski vísindamaður hafði auðvitað sitthvað fyrir sér, enda er matur á 21. öldinni uppfullur af ýmsum ónáttúrulegum gerviefnum. En hér er greinin úr Plógi:

 

Árið 2000

Einn merkasti efnafræðingur og vísindamaður þessarar aldar, próf. Berthelot hefir nýlega skrifað um það í Ensku tímariti, hvaðan mannkynið muni að 100 árum liðnum fá fæðu sína.

 

Berthelot álítur, að árið 2000 muni akuryrkja, jarðyrkja, húsdýrarækt, garðrækt og fiskiveiðar ekki þekkjast að öðru en nafninu einu frá liðna tímanum.

 

Hvernig fara menn þá að lifa? Þessu svarar prófessor Berthelot hér um bil á þessa leið:

 

Öll fæða verður búin til í verksmiðjum. Efnið í matinn fá menn úr vatninu og andrúmsloftinu. Því eins og menn vita, eru frumefnin í fæðunni, t. a. m. kjöti, brauði, mjólk og fiski þau sömu og í loftinu og vatninu, sem sé vatnsefni, súrefni, kolefni og holdgjafi. Andrúmsloftið er blendingur af köfnunarefni (holdgjafa), súrefni og kolsýru.

 

Í kolsýrunni eru tvö frumefni kolefni og súrefni, í vatninu, vatnsefni og súrefni. Þarna eru þá aðal frumefnin komin, sem við halda líkama vorum, en þau þurfa einungis að komast í það ástand, að þau geti orðið líkama vorum að gagni og að því starfa nú ótal margir vísindamenn með hjálp efnafræðinnar.

 

Og svo mikið er nú víst orðið, að ekki líður á löngu þar til efnafræðingunum hefir tekist að framleiða mat úr loftinu og vatninu.

 

Sú vísindagrein, sem gefur fulla bendingu í þessa átt er hin svokallaða „ Syntetisk Kemi“.

 

Eg hefi ekki einungis trú á þessu heldur er mér ómögulegt að efast um það, að eftir 100 ár verði brauð og kjöt o. s. frv. framleitt af loftinu. Það vita allir, að reyrsykurs- og sykurrófnaræktin er að líða undir lok.

 

Því nú fjölgar óðum þeim verksmiðjum, sem búa til sykur af súrefni, kolefni og vatnsefni, nákvæmlega eins góðan og eins útlítandi og venjulegur sykur er.

 

Tekist hefir líka að búa til kaffi og te alveg eins og það te og kaffi er, sem framleitt er af jörðinni. Aðalefni í kaffinu er coffein og í té thein; kemisk samsetning þessara efna er eins.

 

Þegar efnafræðingar láta kolsýru verka á klórgas myndast kolklorið og sameinist það ammóiaki myndast þvagsýra, sem breytist svo í xantin og af xantini myndast theobromin.

 

Teobromin framleiðir svo thein eða coffein, hvert sem menn heldur vilja.

 

Eg segji ekki, segir prófessor Berthelot, að verksmiðju kjötið eða brauðið verði eins og kjöt og brauð að útliti en það gerir alls ekkert til; þegar þetta kjöt verður eins bragð gott og nærandi og kjöt af húsdýrum vorum.

 

En hvaðan fá menn hreyfiafl fyrir þessar matarverksmiðjur? Hiti jarðarinnar er nógur, einungis að bora dýpra í jörðína en hingað til hefir verið gjört eða hér um bil 3—4000 metra.