Konur með skegg, feitt fólk, síamstvíburar og „dvergar“. Fólk með slíka sjúkdóma og útlitseinkenni var sýnt á „fríksjóvum“ fyrr á árum í fjöllleikahúsum og skemmtigörðum. Sýningar á „dvergum“ voru oftar en ekki vinsælastar og dæmi þekktust um að dvergar byggju í sérstökum dvergaþorpum í skemmtigörðum. En tímarnir hafa breyst og í dag eru slík fríksjóv harðlega gagnrýnd enda þykir ekki uppbyggileg iðja að græða á sýningum á líkamlegri fötlun fólks. Slík starfsemi þykir oftar en ekki gera fullmikið úr fötlun „sýningargripa“ sinna og ala á fordómum. En dvergasýningar eru ekki alveg útdautt fyrirbæri og ein slík var haldin í Kringlunni í síðustu viku.

 

Fáir íslenskir fjölmiðlar skrifuðu á gagnrýnan hátt um „dvergasýningu“  í bókabúð Eymundssonar í Kringlunni. Bloggsíðan Druslubækur og doðrantar vakti athygli á málinu en Eyja M. Brynjarsdóttir skrifaði eftirfarandi: „Einhvern veginn stóð ég í þeirri trú að gripasýningar á fólki sem af einni eða annarri ástæðu sker sig úr fjöldanum væru úrelt fyrirbæri og einn af þessum svörtu blettum úr fortíðinni sem við þættumst yfir hafin núorðið. Ég hélt að við gerðum okkur að minnsta kosti far um að sýna hvert öðru þá lágmarksvirðingu að meðhöndla ekki hvert annað eins og sýningargripi,“ skrifar Eyja.

 

Fjörmiklir dvergar

„Risar eru venjulega ógreindir og ná ekki háum aldri. Dvergar eru aftur á móti oftast greindir, fjörmiklir og ná oft háum aldri. Oft eru þeir vel vaxnir og snotrir, en stundum eru þeir óeðlilega höfuðstórir í samanburði við annan vöxt.“ Þessi orð birtust í jólablaði barnablaðsins Æskunnar árið 1951.

 

„Sem betur fer, eru dvergvaxnir menn mjög sjaldgæfir. En einmitt þess vegna voru þeir mjög eftirsóttir, likt og torfengin verzlunarvara, áður fyrr, á meðan einvaldir þjóðhöfðingjar réðu lofum og lögum i mörgum löndum. Þess vegna voru þessir litlu vesalingar oft nefndir „konungsgersemi“,“ var skrifað í Æskuna.

 

Við vitum ekki hvers vegna Æskan taldi risa heimskari en dverga, en ráða má á orðavalinu að höfundur greinarinnar hafi verið haldinn algengri hugsanavillu um smávaxið fólk; að það sé einhver sérstök tegund manna, sérstakt kyn, líkt og í Hringadróttinssögu Tolkiens þar sem hobbitar, dvergar, álfar og menn koma við sögu.

 

Æskan 1951.

Grein um „dverga“ birtist í jólablaði Æskunnar árið 1951.

 

Fram eftir tuttugustu öldinni var fólk sem þjáðist af dvergvexti sýnt í fjölleikahúsum og skemmtigörðum, komu fram á furðusýningum með skeggjuðum konum, risum og ýmsu öðru fólk er þjáðist af sjúkdómum og fötlun. En í dag hefur töluvert dregið úr sýningum af þessu tagi í heiminum enda hafa margir áttað sig á því að um sé að ræða mannverur af holdi og blóði sem þjást af erfiðum sjúkdómum.

 

Ein frægustu fríksjóv sögunnar fóru fram á Coney Island í New York á fyrri hluta síðustu aldar þar sem risastórir skemmtigarðar voru starfræktir.

Vídjó

 

 

Alvarleg fötlun

Árni V. Þórsson, lektor í læknisfræði, útskýrir ástæður dvergvaxtar á Vísindavefnum:

 

„Dvergvöxtur kemur fyrir bæði hjá mönnum og dýrum og eru orsakir margvíslegar. Skilgreiningar eru nokkuð mismunandi en hjá mörgum faghópum er talið að fullvaxnir karlmenn sem ekki ná 147 cm hæð séu dvergvaxnir.

 

Meðalhæð karla með sjúkdóminn brjóskkyrking (achondroplasiu) er rúmlega 120 cm. Orsök brjóskkyrkings er ekki hormónaskortur heldur erfðagalli. Hann leiðir til þess að frumurnar í vaxtarbrjóskinu vaxa óeðlilega og veldur það óeðlilegum vexti löngu útlimabeina. Vöxtur höfuðbeina og búks getur hins vegar verið nánast innan eðlilegra marka. Sjúkdómurinn er sjaldgæfur, og kemur fram hjá einum einstakling af hverjum 14.000 sem fæðast.

 

Skortur á hormónum eins og vaxtarhormóni og skjaldkirtilshormóni getur einnig leitt til dvergvaxtar en séu börnin greind í tíma og fái þau rétta meðferð verður vöxtur oftast eðlilegur. Dvergvaxnir einstaklingar með vaxtarhormónsskort eru venjulega með eðlileg líkamshlutföll, en líkamsvöxtur er mjög hægur. Ef skjaldkirtilshormón vantar við fæðingu og börnin fá ekki meðhöndlun getur komið fram svokallaður skjaldkyrkingsdvergvöxtur (cretinismus) en börnin verða þá dvergvaxin og þroskaheft. Framfarir í læknisfræði hafa leitt til að þessar tegundir dvergvaxtar sjást nær aldrei í þróuðum löndum.“

 

„Búa eins og tamdir páfagaukar“ 

Barnablaðið Æskan birti árið 1978 grein um sýningar á þremur tyrkneskum dvergum og lífi þeirra. Tæp þrjátíu ár voru liðin frá því að sama tímarit hafði rætt um dverga sem greinda og risa sem heimska og myndin sem við fengum nú af lífi „dverganna“ var mun sorglegri og raunsæislegri.

 

„Aumingjarnir litlu. Þau geta ekki farið út á götu, án þess að allir glápi á þau. Þau geta ekki farið í búðir og keypt sér föt. Þau verða að sitja fremst, ef þau fara í bíó. Það er svo margt, sem þau geta ekki. En það eru hlutir, sem þau hafa lært að komast af án. Lært að lifa með – eða án.

 

Það er erfitt að vera glaður og reifur, þegar allir stara á mann og byrja að pískra saman um leið og maður gengur framhjá.

 

Úr Æskunni árið 1978.

Úr Æskunni árið 1978.

 

Svona er fólk nú einu sinni og öðruvísi verður það varla. Því var það að minnstu, fullorðnu manneskjur í heimi ákváðu að græða á að láta horfa á sig.

 

Suleymann Eris, 24 ára, er minnstur. Hann er 78 cm „hár“ eða lítill“ — eftir því, hvernig það er orðað. Bróðir hans, hinn 21 árs Ibrahim er 85 cm og 18 ára systir þeirra, Sanye er 95 cm. Þau eru úr smáþorpi í Tyrklandi og ferðuðust til Vestur-Þýskalands til að „skemmta“ í eins konar Tívolí þar.

 

Þau kalla sig „putana“ eða „þumalinga“, en vísindalegt heiti á þeim er „hypofysiskir dvergar“.

 

Þessir dvergar eru allir mun minni en aðrir, en höfuð, hendur og fætur hafa hlutfallslega rétta stærð miðað við aðra hluti líkamans. Hlutföllin eru góð, en lítil.

 

Það kostar 7 þýsk mörk (630 kr.) að fá að koma inn og sjá, hvað fólk getur orðið lítið.

 

Þarna búa þau eins og tamdir páfagaukar og gera ýmislegt eftir skipun.

 

Fyrir sama miða færðu að sjá tvo duglega höfrunga í sundlaug, simpansa, draugalest, fara í stutta siglingu og sjá lítinn dýragarð.“

Æskan 1978.

Úr Æskunni árið 1978.

„Minnsti maður heims“ í Kringlunni

Í síðustu viku heimsótti Ísland 19 ára piltur frá Nepal. Hann heitir  Khagendra Thapa Magar og þjáist af svipuðum sjúkdómi og tyrknesku systkinin. Hann ferðast um heiminn á vegum útgefanda bóka um „fáránlegar staðreyndir og dularfullar verur“. Khagendra býr við sama hlutskipti og Tyrkirnir, hefur ákveðið að starfa við að sýna fötlun sína.

 

Þessi kynningartexti birtist á vef bókabúðarinnar Eymundsson:

 

MINNSTI MAÐUR HEIMS Á ÍSLANDI.

„Hinn 19 ára gamli Khagendra Thapa Magar frá Nepal er aðeins 56 sentímetrar á hæð. Hann mun heimsækja Ísland í tilefni af útkomu nýrrar RIPLEY‘S ÓTRÚLEGT EN SATT!-bókar sem er sú 6. í röðinni. Ber þessi bók undirtiltilinn EKKI FYRIR VIÐKVÆMA, enda þurfa menn að vera hugaðir til að rannsaka furðuveröld Ripleys þar sem fáránlegar staðreyndir og dularfullar verur ráða ríkjum.“

 

„Í hinni nýútkomnu RIPLEY‘S ÓTRÚLEGT EN SATT!-bók kemur fram að Khagendra er aðeins 56 sentímetrar á hæð og því rétt í nýburastærð. Þegar hann fæddist árið 1992 vó hann litlu meira en gosdrykkjarflaska og nú á fullorðinsaldri er hann aðeins 4.5 kílógrömm. Vegna smæðar sinnar þarf hann dag hvern aðeins hundrað grömm af fæðu, ígildi tveggja súkkulaðistanga.“

 

„Talið er að vaxtaskort Khagendra megi rekja til truflunar á starfsemi heiladinguls, en að öðru leiti er Khagendra heilsuhraustur og kátur áhugamaður um karate og dans.“

 

„Minnsti maður heims“ í Kringlunni.

„Minnsti maður heims“ í Kringlunni. Skjáskot af vef Eymundsson.